Körfubolti

Jordan heldur áfram að skipta á leikmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Batum varð Evrópumeistari með franska landsliðinu 2013.
Batum varð Evrópumeistari með franska landsliðinu 2013. vísir/getty
NBA-liðin Charlotte Hornets og Portland Trail Blazers skiptu á leikmönnum í gær.

Portland sendi franska framherjann Nicolas Batum til Charlotte en fengu í staðinn Gerald Henderson og Noah Vonleh.

Charlotte, sem er í eigu Michael Jordan, stendur í enduruppbyggingu en ekki er langt síðan liðið skipti Lance Stephenson til Los Angeles Clippers fyrir Spencer Hawes og Matt Barnes.

Batum spilaði með Portland í sjö ár en hann er með 11,2 stig, 5,1 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum í NBA. Hann náði sér hins vegar ekki vel á strik í fyrra og hefur aldrei verið með jafn slaka skotnýtingu (40,0%).

Þrátt fyrir að hafa ekki hitt vel á síðasta tímabili er koma Batums liður í því að gera Charlotte-liðið hættulegra fyrir utan. Ekki er vanþörf á en Býflugurnar voru með verstu þriggja stiga nýtingu allra liða í NBA í vetur (31,8%).

Henderson, sem leikur í stöðu skotbakvarðar, var með 12,1 stig að meðaltali í leik í fyrra en það var lægsta meðalskor hans í leik frá tímabilinu 2010-11.

Vonleh var valinn númer níu í nýliðavalinu í fyrra en spilaði lítið á síðasta tímabili, aðeins 25 leiki.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×