Þórsarar frá Þorlákshöfn eru búnir að finna sér Bandaríkjamann fyrir átökin í Domino's deild karla í körfubolta á næsta tímabili.
Sá heitir Vance Hall og 1,93 metra hár leikstjórnandi frá Kentucky í Bandaríkjunum.
Hall útskrifaðist frá Bellarmine háskólanum í Louisville í Kentucky á síðasta ári. Hann lék í tvö ár með liðinu í 2. deild háskólaboltans en þar áður lék hann með Wright State University í 1. deild.
Á lokaárinu sínu með Bellarmine var Hall með 14,7 stig, 4,6 fráköst og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var með 49,2% skotnýtingu, þar af 41,4% fyrir utan þriggja stiga línuna.
Samkvæmt heimasíðu Þórs er ekki ljóst hvenær Hall kemur til landsins en hann verður allavega með liðinu í Lengjubikarnum sem hefst 14. september.
Einar Árni Jóhannsson mun stýra Þór á næsta tímabili en hann tók við þjálfun liðsins í vor af Benedikt Guðmundssyni.
Þá er miðherjinn hávaxni Ragnar Nathanealsson kominn aftur til Þorlákshafnar eftir eins árs dvöl í atvinnumennsku í Svíþjóð.
Einar Árni búinn að finna Kana fyrir veturinn

Tengdar fréttir

Annar Ragnar til liðs við Þór Þorlákshöfn
Ragnar Örn Bragason skrifaði í gær undir tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Þórs Þorlákshafnar.

Einar Árni tekur við Þór Þorlákshöfn
Einar Árni Jóhannsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Þór Þorlákshöfn í Domino's deild karla í körfubolta.

Ragnar kominn aftur til Þorlákshafnar
Risinn Ragnar Nathanaelsson er kominn aftur í íslenska boltann.