Gates mætti til landsins fyrir helgi og skoðaði Gullfoss á föstudaginn á för sinni um Suðurlandið. Hópurinn ók um á glæsilegum Mercedes Benz V-Class. Síðar um kvöldið sótti Gates svo hestasýningu sem sett var sérstaklega upp fyrir fjölskylduna á Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum.

Gates, sem er ríkasti maður heims samkvæmt nýjustu úttekt Forbes, heldur til í The Trophy Lodge sumarbústaðnum í Úthlíð á meðan á veru hans hér á landi stendur. Bústaðurinn er í eigu Jóhannesar Stefánssonar, veitingamanns og eiganda Múlakaffis. Parið Jay-Z og Beyonce dvöldu þar í desember síðastliðnum. Þau heimsóttu líka Bláa lónið en gerðu það reyndar að degi til.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur ýmsu verið tjaldað til hvað varðar mat og drykk í bústaðnum en umstangið þykir einmitt svipa til þess þegar Beyonce og Jay-Z dvöldu hér á landi. Notast hefur verið við þyrlu vegna heimsóknar Gates hjónanna en Beyonce og Jay-Z gerðu slíkt hið sama í heimsókn sinni.