Sport

Systur unnu gull og brons í 100 metra skriðsundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cate Campbell óskar systur sinni Bronte Campbell til hamingju með gullið með því að smella á henni kossi.
Cate Campbell óskar systur sinni Bronte Campbell til hamingju með gullið með því að smella á henni kossi. Vísir/Getty
Ástralskar systur unnu tvö af þremur verðlaunum í boði í 100 metra skriðsundi á HM í sundi í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi í dag.

Bronte Campbell, sú yngri, tryggði sér gullið en Cate Campbell, sú eldri, varð að sætta sig við bronsið en hún hafði titil að verja.

Hin 23 ára gamla Cate Campbell var með betri tíma eftir undanúrslitasundið en hin 21 árs gamla Bronte Campbell hoppaði upp úr þriðja sæti og upp fyrir bæði systur sína og hina sænsku Sarah Sjöström sem var með bestan tímann í undanúrslitunum.

Bronte Campbell var þarna að vinna sína fyrstu einstaklingsgrein á stórmóti en Cate Campbell systir hennar vann einmitt þessa grein á HM í Barcelona fyrir tveimur árum síðan.

Cate Campbell vann einnig gull með boðssundsveit Ástrala á Ólympíuleikunum í London og brons í bæði 50 metra skriðsundi og boðsundi á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Þær systur höfðu áður unnið gullverðlaun á þessu heimsmeistaramóti með áströlsku boðssundssveitinni í 4 x 100 metra skriðsundi.

Cate og Bronte Campbell eru báðar fæddar í Malaví en fjölskyldan fluttist til Ástralíu árið 2001 þegar Cate var níu ár og Bronte sjö ára.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×