Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir mikið álitamál hvað Íslendingar séu að gera í hópi þeirra þjóða sem beiti þvingunum.
„Það hlýtur að koma til skoðunar hjá okkur, þegar að afleiðingarnar við að skrifa undir slíkar þvinganir eru þær sem að raun ber vitni, að endurmeta stöðuna, sérstaklega þegar þeir sem við höfum stillt okkur upp við hliðina á, eru ekki tilbúnir til að sýna samstöðu,” sagði Bjarni í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að ólíklegt væri að stuðningur Íslands við þvinganirnar yrði afturkallaður. Að sögn hans ríkir einhuga stuðningur í ríkisstjórninni um viðskiptaþvinganir.
Unnur Brá segir mikilvægt að ekki gleymist að það séu Rússar sem beiti Íslendinga þvingunum, ekki öfugt.
„Gleymum því ekki að aðgerðir Vesturlanda beinast gegn fámennri elítu en aðgerðir Rússa skaða almenning,“ segir Unnur Brá.
„Rússnesk stjórnvöld hafa það í sinni eigin hendi hvort eðlileg viðskipti geti haldið áfram. Þeir geta einfaldlega lyft viðskiptabanninu og látið af hermangi í Úkraínu.“