Erlent

ISIS sagðir fremja fjöldamorð í Sirte

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamenn ISIS nærri SIrte.
Vígamenn ISIS nærri SIrte. Vísir/AFP
Vígamenn samtakanna Íslamskt ríki eru sagðir hafa myrt tólf manns í borginni Sirte í Líbýu með því að höggva af þeim höfuðið. Líkin voru krossfest, en stjórnvöld landsins segja að samtökin séu að fremja fjöldamorð í borginni.

Sirte féll að mestu í hendur ISIS í maí, en í vikunni hefur hart verið barist í einu hverfi borgarinnar. Um 200 manns hafa faliið í baráttunni samkvæmt stjórnvöldum. Þar berjast vígamenn við vopnaðar sveitir íbúa.

Á vef Independent segir að vígamenn ISIS hafi hengt lík fram af brúm í borginni og að þeir hafi myrt 22 íbúa sem gengu til liðs við hópinn sem berst gegn samtökunum, þar sem þeir lágu særðir á sjúkrahúsi í borginni. Þar að auki kveiktu þeir í sjúkrahúsinu.

Stjórnvöld Líbýu gáfu frá sér tilkynningu í gær. Þar segir að þau ráði ekki lengur við sókn ISIS þar í landi og biðja þeir um hjálp frá alþjóðasamfélaginu, sérstaklega öðrum arabaþjóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×