Tyrkir hófu í dag loftárásir á ISIS í Sýrlandi. Árásirnar eru hluti af samvinnu um að stöðva ofstækishópinn og er sú vinna leidd af bandarískum yfirvöldum. CNN greinir frá.
Þátttaka Tyrkja í loftárásunum var staðfest á mánudag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Tyrkja.
Tyrkir hafa áður ráðist að ISIS í Sýrlandi en þær aðgerðir tengdust ekki bandarískum yfirvöldum. Árásirnar í dag voru fyrsti liður í þeirri samvinnu.
„Við fögnum því að Tyrkland taki þátt í aðgerðum úr lofti geng ISIL ásamt öðrum þjóðum í baráttunni gegn ISIL sem miðar að því að sigrast á ofstækismönnunum,“ sagði Peter Cook, talsmaður Varnarmálastofnunar Bandaríkjanna, Pentagon. ISIL er annað heiti yfir samtökin ISIS.
Tyrkir hafa þar til nú ekki viljað taka þátt í samstarfinu við Bandaríkin. Breytingin á afstöðu tyrkneskra embættismanna kemur í kjölfar gríðarlegrar pressu frá alþjóðasamfélaginu auk þess sem grunur leikur á um að sjálfsvígssprengjuárás sem átti sér stað í tyrkneska bænum Suruc hafi verið af völdum ISIS. 34 létust í þeirri árás.

