Borussia Dortmund fór illa með norska félagið Odd í Evrópudeildinni í kvöld en enska úrvalsdeildarliðið Southampton er hinsvegar úr leik.
Borussia Dortmund vann 7-2 heimasigur á Odd og fór þar með áfram 11-5 samanlagt en Dortmund vann fyrri leikinn í Noregi 4-3. Marco Reus skoraði þrennu í kvöld og Shinji Kagawa var með tvö mörk.
Ole Jørgen Halvorsen kom Odd í 1-0 á 19.mínútu leiksins en Henrikh Mkhitaryan jafnaði metin á 25. mínútu og tveimur mínútum síðar var Marco Reus búinn að koma þýska liðinu yfir.
Marco Reus og Shinji Kagawa komu Dortmund síðan í 4-1 fyrir hálfleik og tvö mörk til viðbótar frá Ilkay Gündogan og Reus í byrjun seinni hálfleiks þýddu að staðan var orðin 6-1.
Odd minnkaði muninn í 6-2 en Shinji Kagawa átti lokaorðið með sínu öðru marki í leiknum.
Midtjylland vann 1-0 sigur á Southampton í Danmörku og danska liðið fór þar með áfram 2-1 samanlagt. Morten Rasmussen skoraði eina mark leiksins á 28. mínútu leiksins en fyrri leikurinn endaði 1-1 á heimavelli Southampton.
Norska félagið Molde mátti við því að tapa 3-1 á móti belgíska liðinu Standard Liege í kvöld en Norðmennirnir komust áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Etzaz Hussain jafnaði metin í 1-1 skömmu fyrir hálfleik í leiknum í kvöld og það mark skilaði Molda á endanum áfram í riðlakeppnina þrátt fyrir að Belgarnir hafi skorað tvö mörk í seinni hálfleiknum.
