Lögreglan í Houston staðfesti í gær að Dwight Howard, miðherji Houston Rockets, yrði ekki kærður eftir að hafa verið handtekinn þegar að í ljós kom að hann var með hlaðna skammbyssu í handtösku sinni á leið í flug síðasta föstudag.
Howard var stöðvaður á flugvellinum í Houston, Texas, síðasta föstudag en hann gaf frá sér skotvopnið og fékk að fara um borð í vélina eftir að hafa skilið byssuna eftir.
Er þetta ekki óalgengt í Texas en í fyrra voru alls 77 manns stöðvaðir með skotvopn á leið í flug á flugvellinum í Houston.
Howard hefur í haust þriðja ár sitt í herbúðum Houston Rockets eftir að hafa áður leikið fyrir Los Angeles Lakers og Orlando Magic.
Hefur hann leikið ellefu tímabil í deildinni en hann er með 18,1 stig að meðaltali í leik á ferlinum ásamt því að taka niður að meðaltali 12,7 fráköst í leik.
