Erlent

Pútín ávarpar allsherjarþingið: Aðgerðir Bandaríkjamanna efldu Íslamska ríkið

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá ávarpi Pútíns á þinginu í dag.
Frá ávarpi Pútíns á þinginu í dag. Vísir/EPA
Vladimír Pútín Rússlandsforseti gagnrýndi aðgerðir Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum undanfarin ár í fyrstu ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í áratug í dag. Pútin sagði að innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003 hefði eflt hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið og að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti, sem Rússar hafa undanfarið stutt með vopnaafhendingum, væri sá eini sem væri í raun að berjast gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi.

Ríkisstjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta hefur lýst því skýrt yfir að Assad þurfi að láta af völdum ef binda eigi enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi en Pútín sagðist telja að það væru mistök að vinna ekki með sitjandi ríkisstjórn landsins.

Í ávarpi sínu sagði Rússlandsleiðtoginn að hann hyggist brátt boða sérstakan ráðherrafund til að ræða hinar ýmsu hættur sem staða að Mið-Austurlöndum. Ef hægt væri að mynda bandalag þjóða til að berjast gegn Íslamska ríkinu, væri um leið hægt að binda enda á hinn hinn „mikla og sorglega“ mannflótta frá Sýrlandi sem nú stendur yfir.

Líkt og búast mátti við, nýtti Pútín einnig tækifærið til þess að gagnrýna viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi. Hann sagði aðgerðirnar ganga gegn þeim hugmyndum sem Sameinuðu þjóðirnar stæðu fyrir. Um milliríkjaviðskipti og heimsefnahaginn sagði Pútín að búið væri að „breyta reglunum“ og að fámennur forréttindahópur nyti góðs af því.

Pútín mun að allsherjarþinginu loknu funda með Barack Obama Bandaríkjaforseta, í fyrsta sinn í tæpt ár. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×