Fótbolti

Blatter segist ekkert hafa gert rangt og verður áfram forseti FIFA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sepp Blatter fer ekki fet.
Sepp Blatter fer ekki fet. vísir/getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, segist ætla að sitja áfram sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins þar til í febrúar þegar til stendur að hann láti af störfum.

Hann segist ekki hafa gert neitt rangt þrátt fyrir að dómsmálaráðherra Sviss hafi sett af stað rannsókn á hans málum síðastliðinn föstudag.

Blatter ræddi við starfsfólk sitt í höfuðstöðvum FIFA í Zürich í dag og sagðist þar ekki svara fleiri spurningum um rannsóknina gegn sér sem kynnt var á föstudaginn í síðustu viku.

Blatter er sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og gerst sekur um stórfellda glæpi í starfi, en sjálfur segist hann ekki hafa gert neitt ólöglegt.

Sjónvarpsréttasamningur sem hann gerði ásamt hinum gjörspillta Jack Warner, fyrrverandi varaforseta FIFA, er undir rannsókn sem og 1,3 milljóna króna greiðsla Blatters til Michels Platini, forseta UEFA.

Blatter bíður úrskurðar siðanefndar FIFA sem getur velt honum úr sessi, en sjálfur ætlar hann ekki að fara neitt fyrr en í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×