Í ræðu sinni á fundinum á laugardaginn sagði Sigmundur Davíð orðrétt að Ísland hefði „nýlega heitið því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030. Síðan hafa bæði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og flokksfélagi Sigmundar Davíðs, komið fram í fjölmiðlum og skýrt málið.
„Þetta er ekki einhliða yfirlýsing um 40% lækkun af Íslands hálfu heldur markmið um 40% lækkun í samfloti með Evrópusambandinu,“ sagði Jóhannes Þór við Mbl.is í gær.

Árni Finnsson, formaður náttúruverndarsamtaka Íslands, fagnaði yfirlýsingu forsætisráðherra um helgina. Um skammgóðan vermi var þó að ræða.
„Eða skammgóðan kulda,“ segir Árni í samtali við Vísi í dag. „Það er ekki á hverjum degi sem Sigmundur Davíð hleypur í fangið á ESB til að réttlæta gjörðir sínar.“
Árni viðurkennir að hafa haft sterkan grun og gott betur um að ráðherra væri að fara með fleypur. Hins vegar hafi verið full ástæða til að fagna yfirlýsingu ráðherra enda málefnið ekkert lítið mikilvægt. Enginn fyrirvari hafi verið í orðum ráðherra.
„Lækkun um fjörutíu prósent er örugglega sú tala við þurfum. Það ætti að vera hin sanna tala,“ segir Árni. Staðreyndin sé hins vegar sú að Evrópusambandið hafi nýlega samþykkt að hafa Ísland og Noreg í samfloti þegar komi að því markmiði að minnka losun um fjörutíu prósent. Enn sé því óljóst hve mikil lækkunin þurfi að vera hjá Íslendingum. Það verði þó á bilinu núll til fjörutíu prósent.
Árni segir Norðmenn, sem einnig eru með mikið magn „hreinnar orku“, ætla sér að draga úr losun um fjörutíu prósent. Það verða skilaboð þeirra á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í desember. Ekkert bendir til þess að Íslendingar ætli að gera hið sama þrátt fyrir upphafsorð Sigmundar Davíðs í ræðu sinni um helgina.
Honourable President
This autumn has already produced a truly impressive harvest. The 2030 Agenda and the Addis Ababa Action Agenda alone, amount to a bumper crop and I am optimistic that we will see an excellent result from COP21, indeed Iceland recently pledged a 40% reduction of greenhouse gas emissions by 2030.
Yfirlýsinguna í heild má lesa í PDF skjali hér að neðan.
Uppfært klukkan 13:36
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, áréttar að hann hafi á engum tímapunkti leiðrétt ráðherra. Vel megi vera að textinn hafi ekki verið nægilega skýr í umræddri ræðu en ekki sé um neina stefnubreytingu að ræða hjá íslenskum stjórnvöldum.