Erlent

Grikkir ganga til atkvæða í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Syriza.
Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Syriza. Vísir/EPA
Þingkosningar fara fram í Grikklandi í dag og skoðanakannanir benda til þess að litlu muni á fylgi vinstriflokksins Syriza og hægriflokksins Nýs lýðræðis. Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, sækist eftir endurnýjuðu umboði til að stýra landinu.

Vinsældir Tsipras hafa dalað verulega eftir að flokkur hans samþykkti skilmála neyðarláns en í þeim er að finna ákvæði um stórfelldan niðurskurð í ríkisrekstri, eitthvað sem flokkurinn hafði heitið að samþykkja ekki.

Þingkosningarnar í dag eru þær fimmtu á sex árum en boðað var til þeirra eftir að Syriza-flokkurinn missti þingmeirihluta sinn í síðasta mánuði. Tsipras sagði einnig af sér embætti forsætisráðherra í síðasta mánuði eftir að hafa fengið samning Grikklandsstjórnar við lánardrottna sína samþykktan í gríska þinginu. Sagði hann nauðsynlegt fyrir flokkinn og hann sjálfan að sækja sér nýtt umboð.

Kjörstaðir opnuðu klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma en tæpar tíu milljónir Grikkja hafa kosningarétt. Kjörstaðir loka aftur klukkan fjögur í dag og von er á fyrstu útgönguspám um tveimur tímum síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×