Fótbolti

Lars Lagerbäck býst ekki við Jón Daði spili á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson í leik á móti Tékkum.
Jón Daði Böðvarsson í leik á móti Tékkum. Vísir/EPA
Íslenska knattspyrnulandsliðið verður líklega án framherjans Jóns Daða Böðvarssonar í síðasta heimaleik sínum í undankeppni EM sem verður á móti Lettum á Laugardalsvellinum á morgun.

Jón Daði fékk högg á hnéð og missti af æfingum landsliðsins í vikunni. Þegar Lars Lagerbäck, annar þjálfari íslenska liðsins, var spurður út í stöðuna á Jón Daða á blaðamannafundi í dag, þá var hann ekki bjartsýnn fyrir hönd Selfyssingsins.

„Ég held að Jón Daði verði ekki orðinn leikfær fyrir leikinn á morgun. Hann getur hlaupið en hann finnur til þegar hann sparkar í boltann. Eins og staðan er í dag þá er Jón Daði ekki klár í að byrja eða spila leikinn á morgun," sagði Lars Lagerbäck.

Jón Daði Böðvarsson hefur byrjað sex af átta leikjum Íslands í keppninni og komið við sögu í þeim öllum. Hann var í byrjunarliðinu í báðum sigurleikjum íslenska liðsins á móti Hollandi sem og í leikjunum á móti Tyrklandi og  Lettlandi í upphafi keppninnar.

Kolbeinn Sigþórsson mun því fá nýjan framherja við hlið sér í leiknum gegn Lettum og valið stendur þar líklega á milli þeirra Alfreðs Finnbogasonar, Eiðs Smára Guðjohnsen og Viðars Arnar Kjartanssonar.

Lars Lagerbäck talaði um það á blaðamannafundinum að hann og Heimir Hallgrímsson, hinn þjálfari íslenska liðsins, væru búnir að ákveða hver kemur inn fyrir Jón Daða en Svíinn vildi ekki gefa upp hver það væri þar sem hann ætti eftir að tala við leikmennina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×