Eftir fréttaflutning um fjölskylduna í síðustu viku höfðu fjölmargir samband við fréttastöfu og óskuðu eftir að koma til þeirra fatnaði, ritföngum, skólatöskum, tölvum og fleiru. Þeim var vísað á Rauða krossinn í Hafnarfirði sem sér um félagsleg verkefni vegna hælisleitenda. Hafnarfjarðardeildinni bárust svo mörg símtöl að þar fór starfið úr skorðum og brugðið var á það ráð að biðja fólk sem vildi gefa fjölskyldunni gjafir að senda tölvupóst á netfangið hafnarfjordur@redcross.is.

„Það kom eitthvað af húsgögnum til okkar og við eigum von á fjölskyldunni til okkar í dag. Við fengum helst minni húsbúnað, þ.e lítil raftæki, kaffivél og skrifborð og skrifborðsstól,“ segir Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins.
Hildur segir deildinni jafnframt hafa borist eitthvað af skóladóti fyrir systkinin. „Það hafa fleiri verið að safna skóladóti fyrir þau, þannig að þau fái allt sem þau þurfi. En við þurfum fyrst að vera í samskiptum við skólaskrifstofurnar og Reykjavíkurborg áður en við getum afhent þeim allt sem þau þurfa fyrir skólann, en eins og ég segi þá erum við að vinna í að útvega þeim því sem þau þurfa,“ segir hún.
Systkinin eru þrjú, 13 ára, 15 og níu ára. Þau hófu sinn fyrsta skóladag í gær, en Útlendingastofnun lét hjá líða að sækja um skólavist fyrir þau, og fengu þau því ekki inni í grunnskóla fyrr en fréttir um málið birtust í Fréttablaðinu og á Vísi. Stöð 2 fékk að heimsækja þann yngsta, Petrit, í skólann í gær, eins og sjá má í myndskeiðinu hér fyrir neðan.