Golf

Ólafur Björn úr leik á fyrsta stigi úrtökumótsins í Frakklandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafur Björn Loftsson veltir hér fyrir sér púttlínunni.
Ólafur Björn Loftsson veltir hér fyrir sér púttlínunni. Vísir/Daníel
Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr GKG, féll í gær úr leik á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Ólafur Björn tók þátt í úrtökumóti á Hardelot vellinum í Frakklandi og lauk leik á tólf höggum yfir pari en hann endaði í 78-79. sæti af 103. Aðeins 22 kylfingar komust á næsta stig úrtökumótsins.

Ólafur lék vel á fyrsta deginum og kom inn á einu höggi yfir pari eftir að hafa krækt í fjóra fugla en hann náði sér ekki á strik á öðrum leikdegi og var á fimm höggum yfir pari að öðrum leikdegi loknum.

Ólafur fékk síðan sannkallaða martraðabyrjun á þriðja leikdegi í gær er hann fékk tvöfaldan skolla á fyrstu holu en hann lék hringinn á sjö höggum yfir pari.

Er því einn íslenskur kylfingur eftir en Birgir Leifur Hafþórsson mun leika á öðru stigi úrtökumótsins á Spáni í nóvember. Líkt og Ólafur komust Þórður Rafn Gissurarson og Axel Bóasson ekki í gegn um fyrsta stig úrtökumótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×