Birkir Bjarnason er ánægður með fyrstu mánuðina hjá Basel. Þetta segir landsliðsmaðurinn í samtali við Verdens Gang í Noregi.
Basel keypti Birki frá ítalska B-deildarliðinu Pescara í sumar en félagaskiptin komu nokkuð á óvart því allt benti til þess að hann væri á leið til Torino. Birkir segir að valið hafi verið auðvelt þegar Basel kom inn í myndina.
„Þetta er frábært félag. Þetta var allt óreiðukenndara á Ítalíu. Samningurinn sem ég skrifaði undir þar var þrjár blaðsíður, en 40 hér. Það er talsverður munur á lífinu í Sviss og á Ítalíu,“ sagði Birkir sem skrifaði undir þriggja ára samning við Basel sem hefur orðið svissneskur meistari undanfarin sex ár.
„Mér líður mjög vel hér og vonandi get ég fest mig í sessi hjá Basel,“ sagði Birkir ennfremur.
Basel komst ekki í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem Birkir segir að hafi verið vonbrigði. Þess í stað leikur svissneska liðið í Evrópudeildinni.
„Það var svekkjandi að komast ekki í riðlakeppnina. En við erum í fyrsta styrkleikaflokki í Evrópudeildinni og erum með frábært lið. Við munum ná langt,“ sagði Birkir en Basel tekur á móti Lech Poznan í I-riðli Evrópudeildarinnar í kvöld. Birkir skoraði í 1-2 sigri Basel á Fiorentina í fyrsta leik liðsins í riðlinum.
Leikur Basel og Lech Poznan hefst klukkan 17:00 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Einnig verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.
