Lamar Odom hefur verið að glíma við áfengis- og fíkniefnadjöfulinn síðustu ár og hann virðist hafa misst tökin í gær.
Þá fannst hann meðvitundarlaus á vændishúsi í bænum Crystal í Nevada-fylki. Varð að keyra Odom á sjúkrahús þar sem hann var of stór til þess að flytja með þyrlu.
Ástand hans er enn í óvissu en það er sagt vera alvarlegt. Frekari fréttir af líðan hans eru væntanlegar í dag.
Odom lék með Miami, Dallas og báðum Los Angeles-liðunum á ferli sínum í NBA-deildinni. Hann var einnig giftur raunveruleikastjörnunni Khloe Kardashian.
Odom er aðeins 35 ára að aldri.

