Njarðvík mun halda blaðamannafund á morgun, miðvikudag, þar sem tilkynnt verður um breytingar á leikmannahópi liðsins í Domino's-deild karla.
Gunnar Örn Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, staðfesti þetta við Vísi í dag en hann vildi ekki greina frá tilefni fundarins.
Samkvæmt heimildum Vísis hefur Njarðvík komist að samkomulagi við landsliðsmanninn Hauk Helga Pálsson um að leika með liðinu í vetur. Ekki náðist í Hauk Helga við vinnslu fréttarinnar.
Vísir spurði Gunnar hvort að það stæði einnig til að skipta um Bandaríkjamann en því neitaði hann.
Haukur Helgi kynntur sem leikmaður Njarðvíkur á morgun

Tengdar fréttir

Haukur Helgi á leið til Njarðvíkur
Landsliðsmaðurinn hefur einnig átt í viðræðum við Grindavík og Stjörnuna en þær leiddu ekki til samkomulags.