Körfubolti

Fleiri setja pening á Lakers en Cleveland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lebron James og Kobe Bryant.
Lebron James og Kobe Bryant. Vísir/Getty
NBA-deildin í körfubolta hefst í kvöld með þremur leikjum en framundan eru sex mánuðir og 82 leikir fram að úrslitakeppninni.

Veðbankar bjóða að sjálfsögðu upp á möguleika á því að veðja á það hverjir verða NBA-meistarar 2016. Mestar líkur eru að Lebron James og félagar í Cleveland Cavaliers vinni titilinn en í næstu sætum á eftir eru Golden State Warriors og San Antonio Spurs.

Það eru þó ekki flestir sem eru að setja pening á Cleveland Cavaliers en líkurnar eru tveir á móti einum að Cleveland verði meistari hjá helstum veðbönkunum í Las Vegas eins og Westgate, MGM og William Hill. ESPN segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Flestir eru að veðja á Golden State Warriors og San Antonio Spurs og margir setja líka peninga á lið Los Angeles Clippers og Chicago Bulls.

Það vekur þó líklega mesta athygli að fleiri veðja á það að Los Angeles Lakers verði meistari heldur en settu pening á Cleveland Cavaliers. Þar hjálpar eflaust til að líkurnar hjá Westgate eru sem dæmi 300 á móti einum að Lakers vinni titilinn.

Los Angeles Lakers liðið vann aðeins 21 leik á síðustu leiktíð og var heilum 24 sigurleikjum frá því að komast í úrslitakeppnina. Það eru því nánast engar líkur á því að Lakers-liðið fari alla leið þótt að Kobe Bryant sé kominn til baka eftir meiðsli.

Leikirnir þrír sem fara fram í kvöld eru leikur Atlanta Hawks og Detroit Pistons í Atlanta, leikur Chicago Bulls og Cleveland Cavaliers í Chicago og leikur Golden State Warriors og New Orleans Pelicans á heimavelli meistara Golden State í Oracle Arena í Oakland.

NBA

Tengdar fréttir

Flip Saunders er látinn

Flip Saunders lést um helgina en hann var þjálfari í NBA-deildinni í 17 tímabil en hann starfaði sem körfuboltaþjálfari í 35 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×