Körfubolti

Lebron og Rose báðir klárir fyrir kvöldið | NBA byrjar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James og Derrick Rose verða báðir með liðum sínum í kvöld þegar NBA-deildin í körfubolta fer af stað með leik Chicago Bulls og Cleveland Cavaliers í United Center í Chicago. Þetta kemur fram á ESPN og fleiri bandarískum fréttamiðlum.

LeBron James og Derrick Rose hafa báðir verið að glíma við meiðsli á undirbúningstímabilinu, James í baki en Rose á andliti.

LeBron James og Derrick Rose hafa báðir verið kosnir bestu leikmenn deildarinnar, James reyndar mun oftar, en Rose hefur verið mjög mikið meiddur síðustu tvö tímabil.

Derrick Rose er 27 ára gamall leikstjórnandi sem var kosinn bestur 2011. Hann spilaði 51 leik á síðustu leiktíð og var með 17,7 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í þeim.

LeBron James er 30 ára framherji sem hefur fjórum sinnum verið kosinn bestur í NBA-deildinni (2009, 2010, 2012, 2013). Hann var með 25,3 stig, 7,4 stoðsendingar og 6,0 fráköst að meðaltali á síðasta tímabili.

LeBron James fékk bólgueyðandi sprautu í bakið 13. október og hefur ekkert spilað með liðinu síðan. Hann æfði hinsvegar með Cleveland-liðinu á ný á sunnudaginn og lýsti því síðan yfir í gær að hann verði klár í leikinn í kvöld.

James fékk samskonar bólgueyðandi sprautu í janúar og var þá ekkert með Cleveland Cavaliers í tvær vikur. Að þessu sinni var þó meira um fyrirbyggjandi aðgerð að ræða.

Derrick Rose fékk vænt olnbogaskot á fyrstu æfingu Chicago Bulls á undirbúningstímabilinu þannig að vinstri augnbotninn brákaðist. Rose spilaði hinsvegar í tíu mínútur í síðasta undirbúningsleiks Bulls-liðsins og skoraði átta stig á þessum stutta tíma.

Þetta verður annað tímabil LeBron James með Cleveland Cavaliers síðan að hann snéri aftur heim og flestir NBA-körfuboltaspekingar eru að spá liði hans meistaratitlinum.

Derrick Rose og LeBron James.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×