Bjarni sagði að ríkið gæti einfaldlega tekið tiltekin hlut, til dæmis fimm prósent, og afhent landsmönnum. Með því væru komnir yfir 300.000 hluthafar. Sagði hann að líklega þyrfti að hafa tímabundnar kvaðir á framsali hlutanna.

Í ræðunni minnti Bjarni landsfundargesti á að bankastarfsemi sé ekki áhættulaus rekstur.
Stjórnarskráin á lokametrunum
Bjarni kom víða við í ræðunni og talaði stuttlega um vinnu við breytingar á stjórnarskránni. Hann sagði að það myndi skýrast á allra næstu vikum hvort samstaða væri um frumvarpstextann, sem honum sýnist ekki beri mikið í milli.
Sagði hann breytingarnar fælu í sér ákvæði um réttinn til að kalla eftir þjóðaratkvæði um lög frá Alþingi, um umhverfismál og auðlindamál.

Bjarni talaði um að flokkarnir hafi tekist á um það hve langt skuli ganga í því að lögþvinga breytingar í þessum málum en allir væru þó meira eða minna sammála um að það sé nauðsynlegt að hraða þeirri þróun að hlutur karla og kvenna verði sem jafnastur.
Einlægar þakkir til Hönnu Birnu
Að lokum þakkaði Bjarni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra og fráfarandi varaformanni flokksins, fyrir samstarfið í forystu flokksins. Eins og öllum má vera kunnugt sagði Hanna Birna af sér sem ráðherra vegna lekamálsins, í kjölfar þess að annar aðstoðarmanna hennar viðurkenndi að hafa lekið minnisblaði úr ráðuneytinu.
Nýr varaformaður verður kjörinn á fundi flokksins um helgina en aðeins Ólöf Nordal, sem gegndi stöðu varaformanns á undan Hönnu Birnu, hefur gefið formlega kost á sér. Allir landsfundarfulltrúar eru þó í kjörinu.