Strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi voru hrifnir af frammistöðu Ragnars Nathanaelssonar í sigri Þórs Þorlákshafnar á FSu í Suðurlandsslag á fimmtudaginn.
Ragnar skoraði 23 stig og 21 frákast í 75-94 sigri Þórs sem hefur unnið tvo síðustu leiki sína.
„Þessi drengur er yndislegur, það er ekkert flókið,“ sagði Kristinn Friðriksson um þennan 2,18 metra háa miðherja í þættinum í gær.
„Hann er búinn að eiga magnaða byrjun á þessu tímabili. Það ræður enginn við hann,“ bætti Kristinn við en Ragnar er með 19,5 stig og 17,0 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum Þórs á tímabilinu.
„Þeir bera svo mikið traust til hans og nú geta þeir treyst á að hann klári dæmið,“ sagði Hermann Hauksson sem sér miklar framfarir í leik Ragnars.
„Hann gat verið með svolitla smjörfingur en nú er komið Uhu á puttana. Hann grípur allt og er virkilega flottur,“ sagði Hermann ennfremur.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
Körfuboltakvöld: Var með smjörfingur en er kominn með Uhu á puttana | Myndband
Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: FSu - Þór Þ. 75-94 | Montrétturinn til Þorlákshafnar
Nýliðar FSu eru enn án sigurs í Domino's-deildinni eftir tap gegn Þór Þorlákshöfn í Suðurlandsslag.