AvtoVAZ frá Rússalndi sem framleiðir Lada bíla hefur svipt hulunni af nýjum bíl sem framleiðsla hefst á þann 15. desember næstkomandi. Það verður ekki sagt annað en LADA rati sömu slóð og fyrr hvað útlit bíla sinna varðar. Þessi bíll mun seint fara í sögubækurnar hvað fegurð varðar, en hugsanlega slær hann nýtt met í hina áttina.
Bíllinn hefur fengið nafnið XRAY. AvtoVAZ hefur áður sýnt forvera þessa bíls, tilraunabíl sem var svo til alveg eins. Því virðist sem enginn hafi haft hjarta í sér að segja þeim AvtoVAZ mönnum í millitíðinni hve ljótur bíllinn er. Það er eins og ekið hafi verið á bílinn, bæði á fram- og afturbrettin, en þar eru furðu stórar dældir.
Bíllinn virðist alltof hár fyrir þá litlu glugga sem á hliðum hans er og því verða hurðirnar eins og heilar heimsálfur og gluggarnir sem smá stöðuvötn í samanburði. Ekki lagar það hlutföllin á hve litlum felgum og hjólbörðum bíllinn er. Er þarna því kominn einn ljótasti bíll sem framleiddur hefur verið, a.m.k. á þessum áratug, en þetta útlit hefði kannski þótt í lagi fyrir aldamót. Hafa skal í huga að hér er um álit greinarskrifara að ræða og ekki víst að allir séu honum sammála.
Bíllinn fæst með 106 hestafla 1,6 lítra bensínvél sem líka má fá í 114 hestafla útfærslu. Einnig er í boði 123 hestafla og 1,8 lítra bensínvél og með henni má fá bílinn sjálfskiptan, en þá aflminni aðeins beinskipta.
Ótrúlega ljót ný Lada XRAY
