Samninganefndir Skólastjórafélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning í húsnæði Ríkissáttasemjara á tíunda tímanum í kvöld.
Í samtali við Vísi sagðist Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórnendafélags Íslands, ekki vilja tjá sig um samninginn að öðru leyti en að hann væri gerður á sama grundvelli og niðurstaða gerðardóms vegna kjarasamninga Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Einnig sagði hún að kjarasamningurinn væri innan marka þess samkomulags sem heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði gerðu með sér fyrir skömmu.
Fyrri samningur þessara aðila rann út 31. maí síðastliðinn. Gildistími samningsins er frá 1.júní 2015- 31. mars 2019, verði hann samþykktur. Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Skólastjórafélags Íslands á næstu dögum en atkvæðagreiðsla um hann fer fram dagana 9. til 13. nóvember.
