
Ólöf sagði að eina leiðin til að takast á við ógn af þessum toga væri samstillt átak. „Um leið og við tölum um það hversu mikilvægt það er að frelsi okkar sé tryggt þá þurfa ákveðnir hlutir að vera í lagi til að svo sé. Það er enginn vafi á því að löggæsla í hverju landi skiptir máli,“ sagði hún. „Mjög mikilvægt er að gera ekki lítið úr störfum lögreglu í hverju landi fyrir sig.“
Þá kallaði Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata eftir skýringu frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra um yfirlýsingar sínar í útvarpinu þar sem hann sagði að á meðal flóttamanna leyndust glæpamenn en að stjórnmálamenn þyrðu vart að ræða það af ótta við pólitískan rétttrúnað.

Forsætisráðherra benti á að margar öryggisþjónustur í Evrópu hefðu þegar bent á að samtök á borð við ISIS hafi nýtt sér neyð flóttamanna til að smygla vígamönnum inn um landamæri Evrópu. Sigmundur sagði að hluti af lausn vandans væri að ræða málin út frá staðreyndum.
„Ef við viljum halda aftur af öfgahreyfingum á Íslandi og annarsstaðar er besta leiðin sú að ræða hlutina eins og þeir raunverulega eru, annars erum við að hætta á að fólk leiti á vit öfgahreyfinga,“ sagði hann.
Samkomulag er á milli stjórnmáaflokkanna á Alþingi að sérstakar umræður fara fram um hryðjuverkaárásirnar í París klukkan 13:30 í dag.