Francois Hollande Frakklandsforseti ávarpaði frönsku þjóðina í kvöld og talaði um hryðjuverkaárásirnar á Parísarborg.
„Þessar árásir eru hryllingur,“ sagði Hollande.
Vísir fylgist með ástandinu í París, sjá hér.
„Tvær ákvarðanir hafa verið teknar. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og því verður ýmsum svæðum lokað. Lokað verður fyrir umferð og umfangsmiklar leitir verða gerðar að árásarmönnunum á svæðinu. Hin ákvörðunin sem ég hef tekið er að loka landamærunum. Við verðum að tryggja að enginn komist inn í landið. Á sama tíma verðum við að tryggja að árásarmennirnir verði handteknir reyni þeir að komast úr landi.“
Hryðjuverkamennirnir vilja hræða okkur
Þá sagði Hollande einnig frá því að allt tiltækt lið hafi verið kallað á vettvang til að tryggja öryggi Parísarborgar. „Ég hef einnig beðið um aðstoð hersins. Í þessum töluðu orðum er herlið starfandi í Parísarborg til að tryggja að engar fleiri árásir verði gerðar.
Hollande biðlaði til þjóðar sinnar að halda ró sinni og standa saman og sagði hug sinn hjá fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra.
„Það sem hryðjuverkamennirnir vilja er að hræða okkur.“
Hollande var viðstaddur landsleik Frakklands og Þýskalands á Stade de France í kvöld en var fluttur af vettvangi í flýti eftir að sprengingar heyrðust inni á vellinum.
Francois Hollande segir árásirnar hrylling

Tengdar fréttir

Utanríkisráðherra: Hugur okkar er hjá Frökkum
Engar fregnir hafa borist af Íslendingum sem lent hafa í hryðjuverkaárásinni í París.

„Var skíthrædd á vellinum“
Anna Lára Sigurðardóttir var stödd á knattspyrnuleik Frakklands og Þýskalands þegar hryðjuverkin voru framin um alla Parísarborg

Allt að hundrað létust í gíslatökunni í tónlistarhúsinu í París
Vitni sá framan í einn árásarmanninn en var einn þeirra sem náði að flýja af vettvangi.