Ásmundur fór mikinn í þingræðu í gær, eins og Vísir hefur greint frá, og hvatti almenning til þess að hætta að skipta við Símann. Ástæðurnar eru þær að þingmanninum blöskraði það að völdum einstaklingum, stjórnendum, gæfist færi á að eignast hlutabréf í fyrirtækinu áður en það færi á markað. Fyrirsjáanlegur hagur hvers um sig skiptir milljónum.
„Hjá Símanum eru hins vegar þau mistök ekki viðurkennd. Þar virðist skítastuðullinn vera kominn aftur upp í rjáfur eins og var fyrir kreppu. Þar ætla menn ekki að skila illa fengnum ránsfeng eins og þjófarnir eru tregir til,“ sagði Ásmundur í ræðu sinni og hélt svo áfram:
„Ég segi það við ykkur, kæru vinir hér í þessum sal, og ég segi það við þjóðina: Við þurfum þjóðarsókn gegn spillingu í bankakerfinu og í atvinnulífinu. Það er alger hörmung að horfa upp á þetta. Fólk er gáttað yfir þessu og ég hvet til þess að hið háa Alþingi hætti viðskiptum við fyrirtæki eins og Símann. Það ætla ég að gera og ég hvet þjóðina til að segja upp viðskiptum við þetta fyrirtæki.“
Ásmundur hlaut ákúrur frá forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni, sem hvatti þingmenn til að gæta orða sinna. Og vanda sitt tal. En, Ásmundur lætur það ekki trufla sig í einarðri afstöðu sinni. „Nú eru hluthafar í Símanum byrjaðir að hringja í mig og senda mér skilaboð um að þeir hafi áhyggur af stöðu Símans. Ég er ekki hissa, lausnin liggur hjá yfirmönnunum sem eiga að spila leikinn eftir sömu reglum og aðrir. Það er eina sanngirnin í málinu að þeir skili illafengnum hlutabréfum til baka og fari að leikreglum markaðarins. Verum þar og fordæmum sérhagsmundindlapotið,“ skrifar Ásmundur og hvetur til samstöðu gegn slíkri ósvinnu.