Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, spilar tímamótaleik í kvöld þegar KR-ingar taka á móti Snæfelli í sjöttu umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.
Leikurinn í kvöld verður tvö hundraðasti úrvalsdeildarleikur Brynjars fyrir KR en hann hefur alla líð spilað með Vesturbæjarliðinu fyrir utan eitt ár í atvinnumennsku í Svíþjóð.
Brynjar mætir Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells, í þessum tímamótaleik sínum en Ingi Þór þjálfaði Brynjar í yngri flokkum KR og þekkir hann því betur en flestir.
Brynjar verður þriðji KR-ingurinn til að spila tvö hundruð úrvalsdeildarleiki fyrir KR en hinir eru Guðni Ólafur Guðnason og Lárus Þórarinn Árnason.
Brynjar hefur skorað 2572 stig í þessum 199 leikjum eða 12,9 stig að meðaltali í leik. Brynjar er með 13,2 stig að meðaltali í fyrstu fimm umferðunum á þessu tímabili.
Hér er bara að vera tala um deildarleiki en ekki leiki í úrslitakeppni. Brynjar hefur að auki spilað 82 leiki fyrir KR í úrslitakeppni og hefur því þegar spilað 281 leik fyrir KR á Íslandsmóti og ætti því að geta ná því að spila þrjú hundraðasta leikinn fyrir KR í vetur.
Brynjar varð Íslandsmeistari í fimmta sinn síðasta vor og í annað skiptið sem fyrirliði KR-liðsins. Hann hefur einnig fjórum sinnum orðið deildarmeistari með KR-liðinu.
Leikur KR og Snæfells hefst klukkan 19.15 og fer fram í DHL-höll þeirra KR-inga. Hann er einn af fjórum leikjum kvöldsins en umferðin klárast síðan á morgun. Öllum leikjunum verður síðan gerð skil í Körfuboltakvöldinu klukkan 22.00 á föstudagskvöldið.

