Búist er við hvassri norðanátt með talsverðri úrkomu nyrst á landinu í dag og ættu ferðalangar að taka stöðuna áður en lagt er í hann. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er leiðindaveður í kortunum og má gera ráð fyrir minnst tveimur stormum í komandi viku.
Frost verður á landinu öllu í dag og á morgun. Mest verður úrkoman á Norðurlandi en talsvert minni sunnan- og austan til. Á höfuðborgarsvæðinu verður gola og að mestu bjart. Hiti verður undir frostmarki.
Á morgun má gera ráð fyrir norðlægri átt fyrir norðan og austan og frosti. Í öðrum landshlutum á að vera úrkomulaust fram á kvöld en þá gæti snjóað á suðvesturhorninu. Á þriðjudag bætir í vindinn eftir því sem líður á daginn og verður stormur á landinu, fyrst sunnan til. Storminum fylgir hlýtt loft og gæti víða hlánað sökum þess.
Í flestum landshlutum er hálka eða hálkublettir þó sumstaðar á Vestfjörðum og Austurlandi sé snjóþekja á vegum. Ófært er um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og ekki er hægt að aka úr Bjarnarfirði yfir í Árneshrepp. Aðrir vegir eru færir en vetrarfæri á þeim.
Slæmt ferðaveður á Norðurlandi í dag
