Körfubolti

Kobe kveður í lok leiktíðar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. vísir/getty

Kobe Bryant, leikmaður LA Lakers, tilkynnti í nótt að hann muni leggja skóna á hilluna í lok leiktíðar.

Hinn 37 ára gamli Bryant er að leika sitt 20. tímabil með LA Lakers og nú er farið að styttast í endalokin hjá honum. Hefur verið beðið eftir þessari tilkynningu frá honum.

Kobe skrifaði bréf í nótt sem hét „Kæri körfubolti" þar sem hann tilkynnti um ákvörðun sína. Frumleg leið til þess að tilkynna um ákvörðun sína að skrifa til íþróttarinnar.

„Hjartað ræður við átökin sem og hugurinn en líkaminn segir mér að það sé kominn tími til að kveðja," skrifaði Bryant meðal annars en hann er þriðji stigahæsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar.

„Það er líka í góðu lagi því ég er tilbúinn að sleppa takinu af þér."

Kobe kom beint úr framhaldsskóla í NBA-deildina árið 1996 og vann fimm NBA-meistaratitla með félaginu. Sautján sinnum hefur hann verið valinn í Stjörnuleik deildarinnar.

Síðustu þrjú tímabil hafa endað snemma vegna meiðsla og líkaminn getur ekki mikið meir. Kobe hefur verið slakur í vetur og hefur aldrei skotið eins illa og í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×