Erlent

Birta leyniskjal um uppbyggingu ríkis ISIS-samtakanna

Atli Ísleifsson skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS.
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS. Vísir/AFP
Breska blaðið Guardian hefur birt skjal sem lýsir með hvaða hætti ISIS-samtökin hyggjast koma á starfandi ríki. Í skjalinu er fjallað um að börn skuli þjálfuð sem stríðsmenn, verslun, skóla- og heilbrigðismál.

Skjalið er 24 síður að lengd, ber heitið „Viðmiðunarreglur vegna stjórnunar Ríkis íslam“ og er ætlað „embættismönnum“ sem hafa það verkefni að koma á kalífadæmi samtakanna í Sýrlandi og Írak.

Í skjalinu er því lýst með hvaða hætti ISIS „eigi að efla völd sín með því að byggja upp stjórnsýslu með ólíkum einingum fyrir menntun, heilbrigðismál, verslun og fjármál.“

Markmiðið að koma á ríki

Tekið er á því hvernig ISIS eigi að þróa efnahagsstefnu til að innheimta skatta, stjórna olíu- og gasauðlindum og reisa verksmiðjur þannig að samtökin séu sjálfri sér næg fjárhagslega.

Þá er fjallað um hvernig eigi að mynda tengsl við önnur ríki, hvernig áróðri skuli stjórnað og hvernig skapa skuli menningu þar sem vígamenn sem hafa komið erlendis frá og gengið til liðs fyrir ISIS, lifi við hlið innfæddra.

Þá er tekið á því hvernig piltar skuli þjálfaðir sem stríðsmenn og til dæmis getað mannað vegatálma. Markmiðið sé að koma á ríki.

Slæg, pólitísk samtök

Í frétt Guardian segir að verslunarmaður hafi lekið skjalinu og sýni að fremsta takmark samtakanna sé að koma á ríki. Sérfræðingar telja það viðvörun til Vesturlanda um að vanmeta ekki liðsmenn samtakanna og telja þá einungis ofbeldisfulla villimenn.

Talið er að Egyptinn Abu Abdullah hafi skrifað textann í skjalinu um mitt ár 2014, fljótlega eftir að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, lýsti yfir stofnun kaflífadæmisins.

Charlie Winter, prófessor við Georgia State University, segir í samtali við Guardian að ljóst sé að samtökin séu slæg, pólitísk stofnun með mjög flókna innviði.

Islamic State blueprint


Tengdar fréttir

Lýsti yfir hollustu við ISIS

Tashfeen Malik, annar árásarmannana í skotárásinni í San Bernardino í Kaliforníu á miðvikudag lýsti yfir hollustu við leiðtoga ISIS áður en að skotárásin var framin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×