Bologna lyfti sér upp úr fallsæti í ítölsku úrvalsdeildinni með óvæntum 3-2 sigri á Napoli í hádegisleik ítalska boltans en Napoli missti fyrir vikið af tækifæri til þess að ná toppsæti ítölsku deildarinnar af Inter á ný.
Napoli komst í fyrsta sinn í langan tíma um síðustu helgi á topp ítölsku deildarinnar eftir 2-1 sigur á Inter á heimavelli en leikmönnum liðsins tókst ekki að fylgja eftir sigrinum í dag.
Mattia Destro kom Bologna yfir á 14. mínútu og aðeins sjö mínútum síðar bætti Luca Rossettini við öðru marki heimamanna og leiddi Bologna 2-0 í hálfleik.
Destro var aftur á ferðinni á 60. mínútu leiksins þegar hann skoraði þriðja mark Bologna í leiknum en Gonzalo Higuain tókst að klóra í bakkann fyrir Napoli á 87. mínútu.
Higuain bætti við öðru marki sínu á 90. mínútu en lengra komust gestirnir ekki og fögnuðu leikmenn Bologna óvæntum sigri.
