Yfirvöld í Írak hafa krafist þess að herlið Tyrkja sem sent var inn í Írak fyrir skömmu verði dregið til baka án tafar.
Tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá því að tyrkneskt herlið hefði verið sent til norðurhluta Íraks, skammt frá Mosul sem er ein stærsta borg Íraks og höfuðvígi ISIS þar í landi.
Samkvæmt fregnum var herliðið, um 150 hermenn og 25 skriðdrekar, sent til Íraks til þess að þjálfa þar hersveitir íraskra Kúrda í baráttunni gegn ISIS.
Þessu hafna írösk yfirvöld alfarið og í yfirlýsingu frá forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, segir að vera tyrknesks herliðs í Írak sé alvarlegt brot á fullveldi landsins og alfarið án samþykkis íraskra stjórnvalda. Er þess krafist að Tyrkir dragi herlið sitt til baka án tafar.

