Erlent

Fjöldagrafir finnast í Sinjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitað í fjöldagröf í Írak.
Leitað í fjöldagröf í Írak. Vísir/AFP
Talsmaður Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur greint frá því að sextán nýjar fjöldagrafir hafi fundist í Sinjar-héraði í norðurhluta Íraks. Ekki sé þó ljóst um heildarfjölda líka í gröfunum að svo stöddu. ISIS-liðar náðu stjórn á Sinjar í ágúst 2014 þar sem þeir misnotuðu, rændu og myrtu þúsundir manna úr minnihlutahópi Jasída og hafa Sameinuðu þjóðirnar áður lýst árásunum sem þjóðarmorði.

Auk þessa hafa borist fregnar af öðrum fjöldagröfum víða um landið, á svæðum sem ISIS-liðar réðu áður. Í fyrrasumar gerðu vígamenn samtakanna stórsókn inn í Írak þar sem þeir lögðu undir sig stór svæði. Fjölmargar fregnir bárust af ódæðisverkum þeirra á minnihlutahópum og sjítum í Írak.

Sjá einnig: Raunir Jasída: Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming

Í júní í fyrra myrtu vígamenn um 1.700 hermenn sem voru á flótta undan sókn þeirra nærri Tikrit. Hundruð líka fundust í fjöldagröfum þegar vígamennirnir voru reknir úr borginni í apríl.

Fjöldagrafirnar sem fundust í Sinjar eru í raun nálægt víglínunni og hæpið þykir að sérfræðingar geti skoðað þær í bráð. Tvær aðrar grafir sem fundust snemma eftir að Sinjarborg var frelsuð voru hins vegar kannaðar. Þar segja embættismenn að í annarri hafi fundist lík 78 eldri kvenna og í hinni hafi verið á milli 50 til 60 lík af körlum, konum og börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×