Sautján útköll hafa borist lögreglu og hjálparsveitum í dag vegna veðursins. 135 björgunarsveitarmenn standa vaktina en auk þess er lögreglan með 15 ökutæki úti á höfuðborgarsvæðinu að sinna verkefnum.
Sjá einnig: Þetta er það sem þú þarft að vita um veðrið núna
Björgunarsveitirnar eru með 35 tæki úti, eins og það er orðað í tilkynningu lögreglunnar.
Lögreglan hefur aðstoðað veið að losa fimmtíu ökutæki sem hafa fest sig í snjó og hálku en til viðbótar hafa björgunarsveitirnar hjálpað fólki víða um borg.
Í tilkynningunni þakkar lögreglan fólki sérstaklega fyrir að hafa farið að tilmælum um að vera ekki á vegunum að nauðsynjalausu eða á vanbúnum bílum. Það hefur meðal annars auðveldað snjóruðningstækjum að athafna sig. Enn er þungfært í húsagötum.
„Við biðjum fólk þó að muna að veðrið er ekki gengið niður og því ekki mælt með að farið sé af stað nema þörf sé á,“ segir lögreglan í tilkynningunni.
Fimmtíu bílar losaðir úr snjó það sem af er degi
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
