„Svívirðingar skila þér ekki í forsetaembættið,“ sagði Jeb Bush við Donald Trump í sjónvarpskappræðum í fyrrinótt.
„Ja, látum okkur sjá. Ég er í 43 prósentum, þú í þremur. Til þessa hefur mér gengið betur,“ svaraði Trump, sem hvergi sparaði stóryrðin fremur en í fyrri kappræðum repúblikananna níu, sem allir sækjast eftir því að verða forsetaefni flokks síns.
Þetta voru fimmtu sjónvarpskappræður repúblikana, í þetta skiptið haldnar í Los Angeles, en enn þá eru nærri ellefu mánuðir í forsetakosningarnar.
Að þessu sinni snerist umræðan ekki síst um öryggi bandarísku þjóðarinnar og undarlega kröfu Trumps um að banna öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna.
Sumir frambjóðendurnir notuðu tímann óspart til þess að gagnrýna Trump og yfirlýsingagleði hans.
Bush fór þar fremstur og sagði Trump góðan í hnyttnum tilsvörum. Hins vegar væri hann „… glundroðaframbjóðandi. Og hann yrði glundroðaforseti.“
Rand Paul skaut einnig á Trump fyrir áform hans um að loka Internetinu að hluta, svo öfgamenn geti ekki notað það til að afla sér fylgismanna.
Bush atyrðir Trump í tilnefningarslag
Guðsteinn Bjarnason skrifar
