Lífið

Hvernig nærðu flottustu myndunum af jólamatnum?

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Nú þegar jólahátíðin gengur í garð er mikilvægt að vera með á hreinu hvernig á að ljósmynda matinn sinn á jólunum. Það er almenn þekking að ef þú „instagrammar“ ekki matinn þinn þá er frekar tilgangslaust að borða hann þar sem enginn af fylgjendum þínum mun vita af honum.

Það getur dimmu skammdegi í dagsljósi breytt að þegar vinir líka við fallega matarmynd frá hátíðarveislunum. Fréttablaðið tók saman nokkur ráð sem eru skotheld þegar það kemur að því að ná hinni fullkomnu mynd til að deila með vinunum.



Bjartir litir er auðveldari að vinna með


Jólamaturinn á það til að vera brúnn eða fölbleikur á litinn og það getur verið erfitt að gera gott úr því. Þá getur verið mikilvægt að vera með flott meðlæti í flottum litum. Þá ber helst að nefna fallegt waldorf salat, sætar kartöflur eða fagurgrænt salat.

 

Taktu myndina ofan frá

Myndin kemur mun betur út enda besta sjónarhornið. Matarmyndir af hliðinni eru sjaldnast góðar og oftast ekki girnilegar. Ofan frá færðu líka bestu myndina af því hvað er nákvæmlega á disknum.



Skipulögð óreiða

Of fullkominn diskur er alltaf ótrúverðugur og alltof augljóst að raðað hafi verið á diskinn einungis fyrir ljósmyndina. Leyfðu krumpaðri servéttunni, brauðmynslunni og sósuskvettunum að njóta sín.



Því óhollara því betra

Myndir af óhollum mat eru alltaf vinsælar enda er óhollur matur eitthvað sem allir elska.

 

Diskurinn skiptir máli

Það er ekki bara maturinn sem er inni á myndinni heldur líka diskurinn og hnífapörin. Allt saman skiptir þetta máli þegar hin fullkomna instagram mynd er annarsvegar. Minimalískir stórir diskar og hringlóttar skálar myndast alltaf vel.



‚Filterinn‘ er ekki vinur þinn

Ekki velja einhvern þungan ‚filter‘ til þess að reyna að láta matinn þinn líta út fyrir að vera girnilegri en hann er. Leiktu þér frekar með birtustigið og fleiri stillingar inni á instagram forritinu sjálfu. 



Fleiri en einn diskur á einni mynd

Það raða ekki allir eins á diskinn sinn og það getur verið gaman að sjá nokkrar mismunandi útfærslur. Að vera með nokkra diska inni á myndinni er bara góðs viti. 

 

Hafðu um nóg að velja

Taktu margar myndir til þess að geta valið um þá flottustu. Leiktu þér með fjarlægðina, sjónarhornið og fleira til þess að ná hinni fullkomnu mynd. 

Birtan skiptir máli

Líklega eitt mikilvægasta atriðið á þessum lista. Flassið er mikill óvinur matarmyndanna. Notaðu birtuna inni á heimilinu og kertaljós. Þannig færðu fallega, mjúka og hátíðarlega mynd til þess að deila. 



Kassamerkin eru hættulegur leikur

Aðeins í brýnustu nauðsyn er vel séð að nota kassamerki. Að nota kassamerki til þess að lýsa öllu sem er á myndinni er ekki lengur málið. Ef að fjölskyldan tekur sig saman og notar eitt kassamerki á myndirnar í jólaboðinu þá er það ekkert nema skemmtilegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×