Tónlist

Gaman að kippa fólki úr jafnvægi

"Það skapaðist dáldið "hæp“ þegar við settum fyrsta lagið á netið, sem var Houses in the Hills,” segir tónlistarmaðurinn Sturla Atlas.
"Það skapaðist dáldið "hæp“ þegar við settum fyrsta lagið á netið, sem var Houses in the Hills,” segir tónlistarmaðurinn Sturla Atlas. MYND/ANTON
Tónlistarmaðurinn Sturla Atlas stökk fram á sjónarsviðið í sumar og hristi rækilega upp í íslensku rapp- og hipphoppsenunni. Hálfu ári síðar er hann búinn að senda frá sér halasnælduna (e. mixtape) Love Hurts, sem inniheldur 11 lög, og plötuna These Days en báðir gripirnir hafa vakið mikla athygli.

Sturla Atlas, sem heitir réttu nafni Sigurbjartur Sturla Atlason, er 23 ára og ættaður úr miðbæ Reykjavíkur. Hann er ekki sólólistamaður þótt nafnið gefi annað til kynna heldur semur hann efnið og kemur fram ásamt félögum sínum í 101 Boys. Meðal þeirra eru Jóhann Kristófer Stefánsson, Arnar Ingi Ingason og Logi Pedro Stefánsson sem iðulega er kenndur við Retro Stefson en hann sér einnig um upptökur og hljóðblöndun.

„Ég, Jóhann og Logi syngjum og röppum en Arnar Ingi og Logi vinna tónlistina. Margir aðrir koma að verkefninu, t.d. Kjartan Hreinsson, sem sér um mikið af sjónrænni hönnun hópsins. Hann ljósmyndar og skrásetur flest allt sem við gerum. Hægt er að fylgjast með honum á Instagram undir nafninu @k_tanman og á ktanman.tumblr.com.“

Alltaf kringum tónlist

Sturla Atlas gekk í Austurbæjarskóla og síðar Menntaskólann við Hamrahlíð. Núna er hann á síðasta ári í leikaranámi við Listaháskóla Íslands. „Síðustu vikur hef ég aðallega verið í skólanum að búa til og sýna leiksýningu með bekknum mínum ásamt Ragnari Bragasyni, kennara okkar. Ég hef þó alltaf verið mikið í kringum tónlist þótt ég hafi ekki alltaf verið að búa hana til. Móðir mín er þverflautuleikari, ég æfði á gítar og trommur þegar ég var yngri og svo var ég bæði í rapp- og rokkhljómsveitum þangað til ég varð 14 ára. Allir sem voru í þessum hljómsveitum á sínum tíma eru núna að vinna í 101 Boys kollektívinu sem fæst við tónlist og ýmsa aðra sköpun.“

Kýldum á þetta

Aðdragandinn að Love Hurts var skammur að sögn Sturlu. „Við kýldum eiginlega bara á Love Hurts sem kom út í júní. Við gerðum hana á einum mánuði, ritskoðuðum okkur ekki mikið, heldur keyrðum bara áfram og gerðum eins mikið og við gátum. Það var mjög gaman að vinna þessi lög og á tímabili gerðum við fátt annað en að vera í stúdíóinu allan daginn og fram á kvöld og fórum síðan út á nóttunni. Þegar vinnan við These Days hófst þá vönduðum við okkur meira, unnum hvert og eitt lag lengur og leyfðum hugmyndum að meltast betur. Þar að auki var These Days aðeins stærri pakki að því leyti að við gerðum líka fatalínu í samstarfi við Sigurð Oddsson og gáfum út tímarit með Kjartani Hreinssyni.“

Love Hurts og These Days voru eingöngu gefnar út á rafrænu formi og hægt er að hlusta á þær og hlaða niður ókeypis á www.sturlaatlas.com.



„Ég held að fólki hafi fundist erfitt að geta ekki skilgreint hvað við værum að gera. Þetta var kannski smá kynslóðaárekstur eða menningarárekstur, sem er frekar fyndið,” segir Sturla Atlas.MYND/ANTON
Margir töldu þetta grín

Góðar viðtökur í sumar og haust komu honum svolítið í opna skjöldu. „Við bjuggumst allavegana ekki við þessu þegar við vorum að byrja. Það skapaðist dáldið „hæp“ þegar við settum fyrsta lagið á netið, sem var ­Houses in the Hills. Annars var mjög eftirminnilegur dagur þegar fyrsta myndbandið kom á netið en það var við lagið Over Here. Það var ákveðinn hápunktur.“

Á mjög skömmum tíma vakti Sturla Atlas mikla athygli. „Þegar við gáfum út Over Here fannst mér eins og sumir áttuðu sig ekki á hvað væri í gangi. Margir héldu að við værum að grínast eða að framkvæma einhvern gjörning. Ég held að fólki hafi fundist erfitt að geta ekki skilgreint hvað við værum að gera. Þetta var kannski smá kynslóðaárekstur eða menningarárekstur, sem er frekar fyndið. Það er gaman að kippa fólki smá úr jafnvægi.“

Nota helst Twitter

Eins og með aðra tónlistarmenn, sérstaklega ef yngri kynslóðinni, skipta samfélagsmiðlarnir öllu máli fyrir markaðssetningu tónlistarinnar. „Þeir skipta reyndar öllu máli fyrir flesta listamenn eða skemmtikrafta í dag. Við notum aðallega Twitter til að koma hlutum á framfæri og höfum gert það síðan Sturla Atlas byrjaði. Síðan er öll tónlistin okkar á Spotify og hægt að skoða fatalínuna okkar og tímaritið á sturlaatlas.com.

Stefnir á útskrift

Næstu mánuðir verða annasamir hjá tónlistarmanninum og leiklistarnemanum. „Næstu helgi kem ég fram á risatónleikum með GusGus, Úlfi Úlfi og Gísla Pálma. Á Þorláksmessu verðum við með pop-up búð í Maclandi á Laugaveginum. Við munum selja föt og varning og höldum líka tónleika. Síðan spilum við á Síðasta Sjens í Iðnó 30. desember ásamt Retro Stefson og Reykjavíkurdætrum sem verður veisla. Annars er ég að fara á síðustu önnina mína í LHÍ þannig ég mun vera mikið í skólanum næsta hálfa árið. Vanalega þegar það er minna að gera hjá mér í skólanum þá finnum við tíma til að taka törn í stúdíóinu þannig við munum örugglega bara halda því vinnulagi áfram í vetur.“

Nánari upplýsingar um Sturlu Atlas má finna á www.sturlaatlas.com, á Twitter (@sturlaatlas) og á Face­book. Á YouTube-rásinni Sturla Atlas má einnig skoða myndböndin hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×