Jón ritaði færslu á Facebook um orð Bjarkar sem hún lét falla í viðtali við breska fjölmiðilinn Sky þar sem hún kallaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fyrir að vilja útmá hálendið í stað þess að vernda það.
Sjá einnig: Björk segir Sigmund Davíð og Bjarna vera sveitalubba

„Nýting þeirra mun skapa traustan grunn að Íslensku samfélagi, tækifæri til að gera svo mikið betur á mörgum sviðum. Ég reikna ekki með að Björk leggi sín lóð á þær vogarskálar, eða borgar hún skatta og gjöld á Íslandi. Spyr sá sem ekki veit,“ skrifar Jón sem er formaður atvinnuveganefndar Alþingis. Lýkur hann skrifum sínum um Björk með því að segja: „Hún er frekar dauf til augnanna á bak við grímuna.“
Dagur B. kallar þessi skrif Jóns lágkúru og segir Jón eiga að biðjast afsökunar á þessum ummælum og draga þau til baka að eða sitja uppi með ævarandi skömm.
„Björk er ekki aðeins sá íslenski listamaður sem hefur náð lengst á alþjóðavettvangi og sá Íslendingur sem vakið hefur mesta og jákvæðasta athygli á land og þjóð. Hún er líka skýr og afdráttarlaus málsvari íslenskrar náttúru og umhverfismála. Að hún þurfi að fá yfir sig skít og skot vegna þessa - og það af hinu "háa Alþingi" segir mikið um hvernig fyrir löggjafasamkomu okkar er komið. Er tilgangurinn að reyna að hræða fólk frá því að taka málstað umhverfisins,“ spyr Dagur.