Erlent

ISIS hefur misst 14 prósent af landsvæði sínu á árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá sýrlensku borginni Kobane.
Frá sýrlensku borginni Kobane. Vísir/AFP
Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa á þessu ári misst um fjórtán prósent af því landsvæði sem þau náðu í Írak og Sýrlandi eftir að hafa lýst yfir stofnun kalífadæmis á síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar IHS sem birt var í dag.

Í skýrslunni kemur fram að ISIS hafi misst um 13 þúsund ferkílómetra landsvæði á árinu. Hafa liðsmenn samtakanna þurft að hörfa, meðal annars vegna þrýstings frá hersveitum Kúrda og írökskum öryggissveitum.

Bandaríkjamenn, Rússar, Frakkar og Bretar eru í hópi þeirra sem hafa gert loftárásir á skotmörk ISIS í Írak og Sýrlandi síðustu mánuði.

Í frétt USA Today kemur fram að vígamenn ISIS hafi meðal annars neyðst til að hverfa frá bænum Tal Abyad á landamærum Tyrklands og Sýrlands, sem var mikilvægur hlekkur á birgðaleið ISIS inn í helsta vígi samtakanna – borgarinnar Raqqa í Sýrlandi.

Samtökin glötuðu einnig yfirráðum sínum yfir vegi sem tengdi saman borgirnar Raqqa og Mosul, sem eru þó báðar í höndum ISIS-liða. Slíkt flæki þó verulega vöru- og fólksflutninga ISIS milli borganna.

Columb Strack, talsmaður IHS, segir að það hafi haft mjög neikvæð, fjárhagsleg áhrif á ISIS að missa Tal Abyad. Samtökin misstu einnig íröksku borgina Tikrít og olíuhreinsistöðina Beiji í Írak á árinu.

ISIS-liðar hafa þó einnig sótt fram á árinu og náðu meðal annars borginni Palmyra og Ramadi á sitt vald. Írakskar öryggissveitir hafa þó sótt hart fram gegn Ramadi síðustu vikur.


Tengdar fréttir

ISIS-liðar halda fólki í Ramadi

Íraski herinn dreifði miðum um borgina í gær, þar sem íbúar voru beðnir um að yfirgefa borgina á 72 klukkustundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×