Eyþór Rúnarsson meistarakokkur hefur slegið rækilega í gegn með nýju þáttunum sínum á Stöð 2, Eldhúsinu hans Eyþórs.
Í þættinum bjó hann til girnilegt heimalagað pasta sem allir ættu að geta leikið eftir.
Þetta er svo sannarlega réttur helgarinnar.
Heimalagað pasta með kjúklingbollum, spínatsósu og portóbellósveppum
Pastadeig
250 g hveiti
2 egg
3 eggjarauður
1 msk. ólífuolía
½ tsk. salt
Setjið hveitið og saltið saman í skál og blandið vel saman. Gerið holu í miðjuna á hveitinu og setjið eggin, eggjarauðurnar og ólífuolíuna í holuna og blandið öllu varlega saman. Hnoðið deigið í höndunum og setjið svo í plastfilmu og inn í ísskáp í eina klst. Fletjið svo út í pastavél eða með kefli. Skerið í þunnar ræmur og setjið í sjóðandi vatn með salti í um 3 mín.
Kjúklingabollur
550 g kjúklingalæri
6 msk. brauðraspur
2 msk. salvía, fínt skorin
2 msk. steinselja, fínt skorin
1 tsk. chili sambal oelek
½ hvítlaukur
1 msk. sjávarsalt
Skerið kjúklingalærin niður í eins smáa bita og þið getið. Setjið skorin kjúklingalærin með öllu hinu hráefninu saman í skál. Rúllið upp í ca. 25-30 g bollur og setjið á bökunarplötu inn í 200 gráða heitan ofninn í 20 mín.

Spínatsósa
5 skalottlaukar, skrældir og gróft skornir
1 stk. hvítlauksgeiri, skrældur og gróft skorinn
1 poki spínat
½ lítri rjómi
3 msk. grænmetiskraftur
safi úr ½ sítrónu
sjávarsalt
svartur pipar úr kvörn
Hitið pott með olíu í og steikið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið spínatinu út í ásamt rjómanum og sjóðið saman í um 15-20 mín. Maukið sósuna með töfrasprota eða í blandarakönnu og smakkið sósuna til með grænmetiskrafti, sítrónusafa, salti og pipar.
Meðlæti með bollum
Steiktir portóbellósveppir, rifinn ferskur parmesanostur, rifið hrátt brokkólí, sítrónubátur, ristaðar furuhnetur.