Innlent

Allir sem komu að björgunaraðgerðum í Hafnarfirði munu fá áfallahjálp

Sveinn Arnarsson skrifar
Þeir sem komu að björguninni í gær höfðu á orði hversu erfiðar aðstæður voru á slysstað.
Þeir sem komu að björguninni í gær höfðu á orði hversu erfiðar aðstæður voru á slysstað. vísir/ernir

Alvarlegt slys varð við Reykdalsstíflu í Hafnarfirði um miðjan dag í gær þegar tveir drengir féllu í foss sem fellur af stíflunni. Stíflan er við Lækjarkinn í Hafnarfirði, steinsnar frá Lækjarskóla.

Lögreglunni barst tilkynning um slysið klukkan 14.33. Erfiðlega gekk að koma drengjunum til bjargar vegna þess hversu mikill straumur var í rennunni neðan við fossinn.

Annar drengjanna komst til meðvitundar fljótlega eftir að endurlífgunartilraunir hófust. Hinum drengnum var samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum haldið sofandi í öndunarvél þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Karlmaður á þrítugsaldri reyndi að koma drengjunum tveimur til bjargar. Þegar lögreglu bar að garði var maðurinn aðframkominn. Lögregluþjónn var einnig hætt kominn við björgunarstörf þegar hann reyndi að bjarga drengjunum. Að mati lögreglunnar voru þeir báðir í bráðri hættu enda aðstæður á vettvangi afar erfiðar. Fór svo að þeir náðu drengjunum upp á bakkann og hófust þá endurlífgunartilraunir.

Fljótlega eftir slysið voru starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar komnir á vettvang til að kanna aðstæður á slysstað. Tæknideild lögreglu var einnig við störf á vettvangi í gær. Markmið þeirrar vinnu er að fyrirbyggja að slys sem þessi gerist aftur við lækinn. Stíflan og slysstaðurinn eru ekki girt af.

Maðurinn sem kom að björgun drengjanna var einnig fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Honum, auk allra viðbragðsaðila sem komu að málinu, mun verða veitt áfallahjálp vegna slyssins.

Ákveðið var að ráðast í endurbyggingu Reykdalsstíflu árið 2006 til að minnast 100 ára afmælis Rafveitu Hafnarfjarðar.


Tengdar fréttir

Öðrum haldið sofandi í öndunarvél

Ungur drengur liggur þungt haldinn á Landspítalanum eftir alvarlegt slys í læknum í Hafnarfirði í dag. Þrír voru fluttir á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×