KR-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð í kvöld þegar Vesturbæjarliðið heimsækir Tindastól í Síkið á Sauðárkróki í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Domino's-deildar karla.
KR-ingar hafa unnið báða heimaleiki sína í einvíginu með 16,5 stigum að meðaltali en Stólarnir unnu leik tvö á Króknum, 80-72 og hafa ekki tapað á móti KR-liðinu í Síkinu í vetur. Þetta gæti líka orðið fyrsti leikur bandaríska miðherjans Myron Dempsey í einvíginu en hann varð fyrir höfuðhöggi á æfingu fyrir leik númer eitt og hefur ekkert verið með síðan.
Lyfti KR-ingar Íslandsbikarnum á Króknum í kvöld verður það fimmta liðið á síðustu sex árum sem vinnur titilinn á útivelli en það gerðu KR-ingar meðal annars bæði 2011 (í Garðabæ) og 2014 (í Grindavík).
Íslandsbikarinn hefur líka einu sinni áður farið á loft í Síkinu en Njarðvíkingar tryggðu sér titilinn í húsinu fyrir fjórtán árum síðan.
Vinni Stólarnir leikinn í kvöld verða þeir fyrstu nýliðarnir í sögu úrslitakeppninnar sem komast alla leið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.
