Liðið sem var nokkrum sætum neðar en Færeyjar og Liechtenstein haustið 2011 er nú komið í hóp 25 bestu knattspyrnuþjóða heims.
Hinn öflugi spænski knattspyrnutölfræðingur Alexis Martín-Tamayo hefur tekið saman stig landa í næstu útgáfu FIFA-listans og samkvæmt hans útreikningum er íslenska liðið að hoppa upp í 23. sæti listans og er nú aðeins einu sæti á eftir Frökkum og sex sætum á eftir Ítölum.
Aftur bestir á Norðurlöndum
Ísland hefur hæst komist upp í 28. sæti listans en liðið varð efst Norðurlandaþjóða í október 2014. Danir stukku upp fyrir íslenska liðið á næsta lista en eru nú samkvæmt útreikningum Alexis komnir í annað sætið á ný.
Það er langt í bæði Svía (33. sæti) og Norðmenn (neðar en 60. sæti) sem voru sem dæmi meira en hundrað sætum á undan Íslandi fyrir þremur árum síðan.
Standist útreikningar Mister Chip sem bregðast nær aldrei, þá er íslenska landsliðið að hoppa um fjórtán sæti á listanum og verður þetta þá í sjöunda sinn í þjálfaratíð Lars Lagerbäck sem liðið tekur stórt stökk upp FIFA-listann á síðustu 34 mánuðum eða frá fyrsta stóra stökkinu í september 2012.
Sigurinn á Tékkum á Laugardalsvelli fyrir 26 dögum kom íslenska liðinu ekki aðeins á topp riðilsins í undankeppni EM 2016 allt sumar heldur einnig upp í annan styrkleikaflokk þegar dregið verður í undankeppni HM í Sankti Pétursborg í lok mánaðarins.
Sextánda sæti innan Evrópu
Íslenska liðið verður væntanlega í sextánda sæti af evrópsku þjóðunum á nýjum lista en liðin í sætum tíu til átján fylla annan styrkleikaflokk. Ísland er þriðja síðasta liðið þangað til og er á undan bæði Danmörku og Bosníu samkvæmt útreikningum Martín-Tamayo.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þessi sjö stóru stökk íslenska liðsins í þjálfaratíð Lars Lagerbäck en sex af þeim hafa komið eftir flotta sigra í undankeppnum. Auk þess hefur íslenska liðið sex sinnum hækkað sig um fimm til átta sæti milli útgáfu FIFA-listans þessi þrjú mögnuðu ár Lars með íslenska liðið.
