„Við höfum lært heilmikið af þessu. Ég fór fyrst á námskeið um mansal á formannafundi á Ísafirði og þetta mál kom upp í kjölfarið,“ segir Lárus Benediktsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, um meint mansalsmál er varðar fiskvinnslu í Bolungarvík og lögreglan á Vestfjörðum rannsakar.
Lárus fékk, í kjölfar fræðsluerindisins sem var haldið í september fyrir ári, erindi frá Pólverjum sem störfuðu í fiskvinnslu í Bolungarvík. Lögreglan hafði þá rannsakað meinta fjárkúgun verkstjóra í fiskvinnslunni á tuttugu Pólverjum sem þar störfuðu í nærri því eitt ár.

„Því miður þá virðist þetta vera voðalega falið, þetta eru hlutir sem verða að koma upp á yfirborðið og ég hvet alla sem verða varir við eitthvað svona, að gera viðvart og gera eitthvað í þessum málum því það er kominn tími til. Það er of mikið af þessu í samfélaginu, ég er sannfærður um það og þetta á ekki að líðast.“
Lárus segist trúa því að aðkoma mansalsteymisins hafi komið að gagni. „Samkvæmt skýringum í bréfum þá fannst manni svona eins og að þarna væri eitthvað gruggugt á seyði.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnir fræðslu sem þessari í grasrótarstarfi. Fræðslunni fylgir engin fjárveiting. Íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir slaka löggæslu þegar kemur að baráttunni gegn mansali í nýlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagðist í vetur munu leggja sitt af mörkum til að leita eftir fjármunum til framkvæmdar aðgerða sem miða að því að sporna gegn mansali. Enn bólar ekkert á því fé.