Íslenska handboltalandsliðið tapaði í dag fyrir Hvít-Rússum í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í Póllandi. Íslenska liðið hefði tryggt sig áfram með sigri í dag en nú þarf ýmislegt að falla með íslenska liðinu til þess að strákarnir okkar komist áfram upp úr riðlinum.
Noregur vann Króatíu í hinum leik riðilsins og öll liðin í riðlinum eru þar með jöfn með tvö stig. Í lokaumferðinni mætast lið Noregs og Hvíta-Rússlands annarsvegar og lið Íslands og Króatíu hinsvegar.
Hvíta-Rússland getur tryggt Íslandi sæti í milliriðlinum með því að vinna Noreg í fyrri leiknum á þriðjudaginn en jafntefli eða sigur Norðmanna myndi þýða að Ísland yrði að ná í stig í móti Króötum í seinni leik dagsins til að komast áfram á kostnað Hvít-Rússa.
Vinni Ísland og Noregur í lokaumferðinni þá færi Ísland aftur á móti áfram í milliriðilinn með fjögur stig eða fullt hús stiga.
Það eru því allt eins líkur á því að íslenska liðið lendi í leik í þeirri stöðu í leiknum á móti Króatíu að tap þýddi að Ísland væri á leiðinni heim en sigur þýddi að íslenska liðið væri með fjögur stig og yrði þar með í frábærum málum í milliriðlinum.
Hér fyrir neðan er farið yfir stöðuna í B-riðlinum og það má sjá á henni að allt getur ennþá gerst í þessum æsispennandi riðli.
Svona kemst Íslands áfram í milliriðillinn
Hvíta Rússland vinnur Noreg
- Ísland komið áfram [Noregur eða Króatía úr leik]
Hvíta Rússland og Noregur gera jafntefli
- Ísland verður að fá stig á móti Króatíu [Hvíta Rússland úr leik]
Noregur vinnur Hvíta Rússland
- Ísland verður að fá stig á móti Króatíu [Hvíta Rússland úr leik]
Hversu mörg stig fer Íslands með í milliriðilinn, komist liðið áfram:
4 stig
Ísland vinnur Króatíu og Noregur vinnur Hvíta-Rússland
[Ísland 4 stig, Noregur 2 stig, Króatía 0 stig - Hvíta Rússland úr leik]
3 stig
Ísland gerir jafntefli við Króatíu og Noregur vinnur Hvíta-Rússland
[Ísland 3 stig, Noregur 2 stig, Króatía 1 stig - Hvíta Rússland úr leik]
2 stig
Ísland vinnur Króatíu og Hvíta-Rússland vinnur Noreg
[Hvíta-Rússland 2 stig, Ísland 2 stig, Noregur 2 stig - Króatía úr leik]
1 stig
Ísland gerir jafntefli við Króatíu og Hvíta-Rússland vinnur Noreg
[Króatía 3 stig, Hvíta-Rússland 2 stig, Ísland 1 stig - Noregur úr leik]
0 stig
Hvíta-Rússland vinnur Noreg og Ísland tapar á móti Króatíu
[Króatía 4 stig, Hvíta Rússland 2 stig, Ísland 0 stig - Noregur úr leik]
Það bætist síðan enn við útreikninginn endi leikur Hvít-Rússa og Norðmanna með jafntefli.
Ísland getur enn farið með fjögur stig inn í milliriðil | Allt eða ekkert leikur á móti Króatíu?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
