Fjölmargir hafa stigið fram á ritvöllinn síðustu daga og gagnrýnt útdeilingu launanna en töluverður styr hefur staðið um valið á listamannalaunþegunum, sem og valið á úthlutunarnefnd launanna eins og Vísir hefur greint frá.
Sjá einnig: Fjórir rithöfundar samfleytt á listamannalaunum í áratug
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt útdeilinguna eru fyrrum Veðurguðinn Ingólfur Þórarinsson, töframaðurinn Einar Mikael og rithöfundarnir Stefán Máni og Mikael Torfason.
Á Facebook-síðu sinni skrifar Erpur að þrátt fyrir að margra spurninga megi spyrja um sjálft kerfið; hverjum er úthlutað, hversu oft, til hve langs tíma í senn og hvernig megi auka nýliðun væri þjóðin fátækari í anda án launanna.
Sjá einnig: Listamannalaunþegar ársins 2016
„Ég hef aldrei fengið fúlan fimmaur í listamannalaun frá opinberum né einkasjóðum, ég hef hingað til ekki nennt að fylla út einhverja fjórblöðunga,“ skrifar Erpur og bætir við „En getum líka bara lesið bankabækur, fundið andagift í flúorgufu kerskála og raulað hagspár innum gotrauf á þorsk. Hmmm, veisla!”
Færslu Erps má sjá hér að neðan en hún hefur fengið töluverða athygli. Meðal þeirra sem deila henni eru kollegi Erps, tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson, sem skrifar með deilingunni: „Takk Blaz Roca,” en það er listamannsnafn Erps.