Sigurður Breiðfjörð Þorsteinsson, heitasti stuðningsmaður ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta, reyndi að hvetja liðið sitt til dáða gegn Stjörnunni í Ásgarði í gær. Það dugði þó ekki til.
ÍR tapaði fyrir Stjörnunni, 100-80, en Breiðhyltingar eru í tíunda sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti eftir fimmtán umferðir.
Sigurður hefur um langa hríð verið sjötti maðurinn í ÍR-liðinu, sérstaklega á heimavelli þess í Seljaskóla, þar sem hann lætur óspart heyra í sér og býður oft upp á mörg gullkornin.
Í gær reyndi Sigurður hvað hann gat að kveikja í sínum mönnum en því miður fyrir hann og Breiðholtsliðið var það án árangurs.
Það vakti mikla athygli þegar Sigurður öskraði inn á völlinn: „Þú ert ættleiddur frá Nepal,“ en á hvern það var eða hvað það átti að þýða er ekki vitað.
Karl West Karlsson á Leikbrot.is myndaði Sigurð í stúkunni í gær og má sjá þennan sjóðheita körfuboltaáhugamann í spilaranum hér að ofan.
„Þú ert ættleiddur frá Nepal“
Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mest lesið
Fleiri fréttir
