Króatar eru eðlilega í skýjunum eftir sigurinn ótrúlega gegn Póllandi í gær sem skaut Króötum í undanúrslit á EM.
Króatar slátruðu Pólverjum, 37-23, og þessi risasigur fleytti þeim í undanúrslitin. Fáir sáu þetta fyrir.
„Þetta var kraftaverkið frá Medjugorje,“ sagði þjálfari Króata, Zeljko Babic, eftir leik en Medjugorje er þekktur staður hjá trúuðum í Balkan-löndunum.
„Ég vil þakka vini mínum Jesús fyrir þetta. Ég vona að hann fyrirgefi mér fyrir skort á trú fyrir leikinn. Það er virkilega gaman að vinna á þennan hátt. Það skilur enginn hvað gerðist hjá Pólverjunum. Við vorum sterkir í hausnum, spiluðum góða vörn og fengum flotta markvörslu.
„Svona eru íþróttir. Ég trúði ekki á kraftaverk en við unnum. Ég myndi samt aldrei veðja gegn Jesús. Aldrei!“
Króatar munu spila gegn Spánverjum í undanúrslitunum en hinn undanúrslitaleikurinn er á milli Noregs og Þýskalands.
Vil þakka Jesús vini mínum

Tengdar fréttir

Ótrúlegur sigur Króata kom þeim í undanúrslit
Hvorki stjörnum prýtt lið Frakka né gestgjafar Póllands komust í undanúrslitin á EM.